Skíðaskálinn í Tungudal

Skíðaskálinn í Tungudal

Skíðaskálinn í Tungudal er fallegt hús, staðsett neðst í skíðabrekkunum okkar á alpasvæðinu, nokkur hundruð metra frá gangamunna Vestfjarðaganga.

Á neðri hæð hússins er salur sem rúmar um 100 manns í sæti og er vinsæll veislusalur. Á neðri hæð er jafnframt salerni, fatahengi og eldhús sem búið er öllum helstu nauðsynjum.

Á efri hæð eru 4 lítil svefnherbergi með 2 rúmum og handlaug og eitt þriggja manna herbergi. Að auki eru svalir sem nýttar eru sem svefnpláss ef margir eru í gistingu í einu en þar eru 3 rúm og dýnur. Samtals eru því rúm, sængur og koddar fyrir 14 manns og að auki dýnur fyrir 6 manns. 20 manns geta því gist í húsinu í einu. Á efri hæð eru jafnframt tvö baðherbergi með sturtu.

Hægt er að fá uppábúin rúm gegn gjaldi.

Þegar Skíðaskálinn er leigður er gestum frjáls aðgangur að eldhúsinu á neðri hæð og þeim tækjum sem þar eru með ósk um góða umgengni. Grill er í húsinu og góður pallur til að sitja úti á góðviðrisdögum og njóta fallegs útsýnis og dásamlegrar kyrrðar.

Gert er ráð fyrir að gestir gangi frá eldhúsi og sal og þeim menum sem þar eru eins og tekið var við húsinu.

Skíðaskálinn er ekki eiginlegt gistihús þar sem húsið er einungis leigt til hópa og þá allt húsið í einu, ekki er hægt að leiga bara eitt herbergi. Jafnframt er lágmarksleiga 3 dagar.

Þá er jafnframt hægt að leigja einungis salinn fyrir veislur en með salnum fylgir allur borðbúnaður. Hægt er að leigja dúka gegn gjaldi.

Foreldrafélag ísfirskra skíðabarna á Skíðaskálann í Tungudal og hefur Skíðafélag Ísfirðinga (SFÍ) séð um rekstur skálans frá 1.júní til 1. október ár hvert. Yfir vetrarmánuðina er skálinn í umsjá Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar.

Allar frekari upplýsingar og bókanir fara fram á netfanginu skidaskalinn.tungudal@gmail.com

Styrktaraðilar