8. maí 2024
SFI
Þær Þórunn Pálsdóttir og Jóhanna Oddsdóttir voru á ársþingi HSV 2024 sæmdar gullmerki HSV. Þær eru vel að þessu komnar og algjörir fyrirmyndarfélagar. Báðar hafa þær í áratuga rás sinnt hinum ýmsu störfum fyrir félagið, tekið þá og gert mikið gagn. það er algjörlega ómetanlegt fyrir félagið að eiga þær að.
Hér koma greinargerðarnar sem fylgdu tilnefningunum.
Þórunn Pálsdóttir
Tilnefnd til gullmerkis HSV af Skíðafélagi Ísfirðinga
Þórunn hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Víst er að enginn var svikinn um ást og umhyggju í þeim ferðum. Einnig var Þórunn gjaldkeri í stjórn SFÍ um nokkurra ára skeið.
Þórunn er einn af þessum sterku póstum sem Skíðafélagið byggir starf sitt á. Þó hún eigi ekki lengur iðkendur í félaginu er hún alltaf tilbúin að leggja fram vinnu hvort sem það er bakstur, aðstoð við þjálfun, vinna við mót eða hvað annað sem félagið tekur sér fyrir hendur. Nú síðasta áratuginn og ríflega það hefur Þórunn haft umsjón með Skíðaskálanum í Tungudal. Þar eru mörg handtökin sem þarf að vinna: Sjá um bókanir, skipta um á rúmum, þrífa, sinna þvotti, kaupa inn og passa upp á viðhald svo nokkuð sé nefnt. Þetta hefur Þórunn unnið í sjálfboðavinnu og þar með bæði sparað félaginu útgjöld og aflað því tekna.
Skíðafélag Ísfirðinga þakkar af heilum hug Þórunni fyrir hennar framlag, það er ómetanlegt að eiga svona liðsmann.
Jóhanna Oddsdóttir
Jóhanna Oddsdóttir hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.
Allir sem starfa að félagsmálum vita að án öflugra sjálfboðaliða getur ekkert félag lifað til lengdar. Og það finnast varla öflugri sjálfboðaliðar en Jóhanna Oddsdóttir. Hvænar sem þörf er á dugandi fólki til vinnu á Seljalandsdalnum er Jóhanna mætt fyrst allra, gjarnan með hann Nonna sinn með sér, og vinnur eins og sleggja uns verkefið hefur verið klárað. Gildir þá einu hvort um er að ræða uppsetningu á snjógirðingum, vinnu við mótahald, tiltekt í skálanum eða eitthvað annað. Alltaf má stóla á Jóhönnu. Hún hefur líka um árabilt stýrt af röggsemi einu stærsta kaffihlaðborði á Íslandi, Fossavatnskaffinu og setið í ritnefnd Skíðablaðsins í ótal mörg. Jóhanna hefur setið í stjórn skíðafélagsins og sinnt formennsku í mörg ár og skilið eftir sig gott verk. Ef skíðafélagið þarf á fólki að halda þá mætir Jóhanna. Ekki má heldur gleyma hlutverki hennar sem skíðamamma, því hún lagði Skíðafélagi Ísfirðinga til einn besta skíðagöngumann landsins undanfarin ár, Albert Jónsson.
Það er ótrúlega dýrmætt fyrir Skíðafélagið, og fyrir íþróttahreyfinguna, að eiga bandamenn eins og Jóhönnu Oddsdóttur. Jóhanna hlaut silfurmerki HSV árið 2018 og nú er komið að því að stíga skrefið til fulls og veita henni sjálft gullmerkið.
Nánar