Fréttir

Bikarmót í skíðagöngu á heimavelli

12. janúar 2025 SFI
Ísfirðingarnir María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir og Saga Björgvinsdóttir í brautinni. Mynd: Björgvin Hilmarsson (retro_outdoors)
Ísfirðingarnir María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir og Saga Björgvinsdóttir í brautinni. Mynd: Björgvin Hilmarsson (retro_outdoors)

Um helgina fór fram Bikarmót SKÍ á Seljalandsdal. Mótshald gekk eftir áætlum og stóðu keppendur sig vel. Rúmlega 40 keppendur mættu til leiks. Veðrið var gott og snjóalög góð en ekki varð úr rigningu sem hafði verið spáð.  

Fyrsti keppnisdagur var á föstudegi en þá var á dagskrá frjáls aðferð með einstaklingsstarti, keppt var í vegalengdum frá 3.5km, 5km og 7.5 km. Okkar fólk stóð sig vel í brautinni og við Ísfirðingar áttum tvo bikarmeistara þau Maríu Sif Hlynsdóttur og Eyþór Frey Árnason sem sigruðu sinn aldursflokk. 

Á öðrum keppnisdegi var keppt í sprettgöngu með frjálsri aðferð. Sprettbrautin var aðeins með breyttu sniði í ár með virkilega krefjandi brekku og nýrri aðkomu að marksvæðinu og ánægja var með breytingarnar. 

Keppt var í hefðbundinni göngu með hópstarti á síðasta keppnisdegi. Þá var gengið eftir aldursflokkum 3.3km, 5km og 10km. Eins og þekkt er er 5km hringurinn á Seljalandsdal virkilega krefjandi keppnishringur með löngu klifri og krefjandi rennsli. Það reyndi vel á keppendur sem stóðu sig vel. Ýmsar uppákomur voru í brautinni þennan daginn en stæðstu áskorunina fékk Grétar Smári Samúelsson sem þurfti að skipta tvisvar um skíði og einu sinni um stafi. Hann skilaði þó góðri göngu og lét þetta ekki spilla deginum. Ísfirðingarnir stóðu sig vel í brautinni og sýndu góðan karakter. 

Við hjá SFÍ þökkum fyrir samveruna á Seljalandsdal um helgina og hlökkum til komandi skíðaveturs. 

 

Úrslit helgarinnar má finna hér:  https://timataka.net/fismot2025-isafjordur-januar/ 

Myndir má finna á fb síðu mótsins, hér: https://www.facebook.com/events/1340525077375636/?active_tab=discussion 

Nánar

Íþróttamaður ársins 2024 og efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar

12. janúar 2025 SFI
Viðurkenningar fyrir þátttöku í landsliðsverkefum
Viðurkenningar fyrir þátttöku í landsliðsverkefum
1 af 3

Dagur Benediktsson var útnefndur Íþróttamaður Ísafjarbæjar og Eyþór Freyr Árnason efnilegasti íþróttamaður ársins 2024 á hófi sem haldið var á veitingastaðnum Logni. Þar voru jafnframt veittar viðurkenningar til iðkenda sem tekið hafa þátt í verkefnum á vegum landsliða og sérsambanda. Þeir iðkendur hjá SFÍ sem hlutu viðurkenningu fyrir að taka þátt í verkefnum á vegum landsliða og sérsambanda voru:

Alpagreinar:
Bríet Emma Freysdóttir, Katrín Fjóla Alexíusdóttir og Matthías Breki Birgisson tóku þátt í hæfileikamótun SKÍ.

Skíðaganga:
Dagur Benediktsson landsliðsæfingar og keppni með A landsliði Íslands í skíðagöngu.

Grétar Smári Samúelsson og Ástmar Helgi Kristinsson HM unglinga í Planica ásamt æfinga með landsliði.

Eyþór Freyr Árnason, Heimir Logi Samúelsson, María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir og Þórey Þórsdóttir tóku þátt í hæfileikamótun SKÍ

Bríet Emma var jafnframt tilnefnd sem efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.

Um Bríeti:
Bríet hefur sýnt það og sannað að hún vill ná langt í skíðaíþróttinni. Hún mætir á allar æfingar, allan ársins hring og leggur sig alla fram. Hún hefur einnig tekið þátt í hæfileikamótun sem Skíðasamband Ísland hefur haldið síðustu ár. Þar fer hún með þeim í æfingaferðir á skíði til útlanda ásamt því að mæta í „þrekhelgar“ sem þau halda á haustin hérna á Íslandi. Bríet er einstaklega dugleg og samviskusöm, þar sem hún mætir alltaf á æfingar með jákvæðni og einbeitingu sem skilar sér í frábærum framförum. Hún er líka ótrúlega drífandi og hefur einstakt keppnisskap, sem gerir hana að fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í fjallinu. Hún uppskar erfiði sitt í lok síðasta vetrar þegar hún varð í 3. sæti í erfiðum stúlknaflokki á stærsta skíðamóti Íslands, Andrésar Andarleikunum. Það verður spennandi að fylgjast með henni stíga sín fyrstu skref í fullorðinsflokki á næsta ári.

Um Dag:
Dagur Benediktsson er fremsti skíðagöngumaður landsins. Hann er í A-landsliði Íslands í skíðagöngu og keppir fyrir Íslands hönd á mörgum helstu stórmótum heimsins. Dagur ólst upp í Skíðafélagi Ísfirðinga en æfir nú og keppir um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann er mikill keppnismaður, samviskusamur og skipulagður íþróttamaður sem leggur gríðarlega vinnu í að ná árangri. Dagur ver yfir 700 klukkustundum á ári í æfingar, sem jafngildir um tveimur klukkustundum á dag, alla daga ársins. Þrátt fyrir aga og vinnusemi finnur hann alltaf leið til að gera æfingarnar skemmtilegar, sem æfingafélagar hans kunna vel að meta. 

Dagur er mikilvæg fyrirmynd fyrir yngri iðkendur Skíðafélags Ísfirðinga og gefur mikið af sér þegar hann er heima á Ísafirði.

Á síðasta keppnistímabili náði Dagur sínum besta árangri á sterku móti í Idre í Svíþjóð, þar sem hann fékk bestu FIS punkta ferilsins og endaði í 26. sæti í 20 km göngu með frjálsri aðferð. Hann var fyrsti Íslendingurinn í mark í Fossavatnsgöngunni og hápunktur ársins var þegar hann varð fimmfaldur Íslandsmeistari á Seljalandsdal síðasta vetur.

 

Um Eyþór:
Eyþór Freyr Árnason er mikill íþróttamaður sem leggur mikinn metnað í það sem hann er að gera. Hann hefur æfit af kappi skíðagöngu og fótbolta með góðum árangri.  Með mikilli vinnusemi og skýrum markmiðum hefur Eyþór vaxið með hverjum vetrinum sem skilaði honum mjög góðum árangri síðastliðinn keppnis vetur.  Hann var bikarmeistari SKÍ í 15-16 ára flokki sem er samanlagður árangur úr bikarmótum vetrarins 2023. Hann var yfirleitt í 2 sæti í sprettgöngunum en vann allar lengri göngur sem hann tók þátt í. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 15-16 ára flokki bæði í hefðbundini og frjálsri aðferð. Eyþór er sterk fyrirmynd sem sýnir gott fordæmi og verður virkilega spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

Það er óhætt að segja að það sé mikið líf hjá SFÍ og gaman að sjá þessa duglegu iðkendur vera uppskera svona vel.

Nánar

Byrjendanámskeið fyrir börn í 1. – 4. bekk á svigskíðum

8. janúar 2025 SFI
Eins og áður ætlum við að halda byrjendanámskeið fyrir þau börn sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðum. Námskeiðið er ókeypis og er ætlað fyrir þau börn sem hafa áhuga á að æfa skíði en vantar smá upp á til að vera sjálfstæð í lyftunni og/eða skíða sjálf. Eftir námskeiðið ættu allir að vera tilbúnir að mæta á æfingar hjá skíðafélaginu samkvæmt æfingatöflunni okkar.
Námskeiðið verður haldið á fimmtudegi og laugardegi 9. janúar og 11. janúar, svo aftur 16. janúar og 18. janúar. Það verður kl. 17:00 - 18:30 á fimmtudögum og kl. 14:30 - 16:00 á laugardögum. Það á að vera nóg að skrá barnið bara aðra vikuna.
Lesið eftirfarandi upplýsingar vel:
  • Skráning á námskeiðið fer fram í Excel skjali sem má finna hér fyrir neðan. Þar þarf að koma allar helstu upplýsingar um barnið og foreldra/forráðamenn. Það þarf einnig að koma fram á hvaða dögum barnið mun mæta. Hér er linkur inn á skjalið:
  • Foreldrar/forráðamenn verða að vera á staðnum meðan barnið er á námskeiðinu. Þegar börn eru að byrja á skíðum hafa þau oftast minna úthald og gætu þurft pásu eða að hætta fyrr. Við viljum skapa góða upplifun fyrir alla okkar iðkendur.
  • Fyrir þá sem ekki eiga græjur er hægt að leigja í skíðaleigunni. Það er frítt fyrstu 2 skiptin fyrir æfingakrakka á okkar vegum á meðan birgðir leyfa, en eftir það þarf að borga fyrir lánið.
  • Allir iðkendur þurfa að vera með hjálm á æfingum. Öryggisbúnaður er mikilvægur á skíðum og við hvetjum foreldra/forráðamenn til að setja bakbrynjur á börnin.
  • Mjög mikilvægt er að börn séu búin að fara á klósettið áður en þau mæta á æfingu. Það getur verið sérstaklega erfitt fyrir þessi yngstu að klæða sig úr sjálf og þjálfarar hafa ekki tíma til að aðstoða.
  • Einnig er mjög mikilvægt að öll séu klædd eftir veðri og búin að næra sig vel fyrir æfingu.
Eftir að námskeiðinu líkur getum við því miður ekki tekið við börnum á æfingar sem eru ekki lyftuvön. Það þarf alltaf auka mannskap fyrir byrjendur og því getur verið erfitt að taka við þeim á öðrum tímum. Við gætum aðstoðað við að útvega þjálfara í einkakennslu fyrir þá sem vilja en það yrði þá að vera gegn gjaldi.
Ef þið hafið einhverjar spurningar megið þið senda þær á sfi.thjalfun@gmail.com.
 
Hér er hlekkur á facebook síðu 1.-4. bekkjar í alpagreinum https://www.facebook.com/groups/433060506797920/ 
Nánar

Bikarmót í skíðagöngu á Seljalandsdal 8.-10.janúar 2025

4. janúar 2025 SFI
 
Dagana 10-12 Janúar 2025 fer fram bikarmót í skíðagöngu á Seljalandsdal á Ísafirði, en mótið er einnig alþjóðlegt FIS mót.

Skráningar skulu berast frá hverju skíðafélagi í mótkerfi Skíðasambands Ísalands, sjá hér.

Keppendur 17 ára og eldri þurfa FIS-leyfi til að taka þátt í FIS móti. Sótt um hjá ski@ski.is
 
Dagskrá:
18:00 Föstudagur 10. Janúar - Frjáls aðferð. Einstaklingsstart.
11:00 Laugardagur 11. Janúar - Sprettganga frjáls aðferð. Einstaklingsstart.
11:00 Sunnudagur 12. Janúar - Hefbundin aðferð. Hópstart
 
Starfsmenn:
Hlynur Kristinsson Mótstjóri 693-3358
Heimir Hansson Mótssvæði 8623291
 
Eftirlitsmenn (TD)
Daníel Jakobsson TD
 
Allar frekari upplýsinar og samkipti varðandi mótið fer fram á Facebook viðburði mótsins sem má finna hér.
Nánar

Ísfirðingar heiðraðir á Skíðaþingi 2024

23. september 2024 SFI

Vel tókst til síðastliðna helgi þegar 75. Skíðaþing Skíðasambands Íslands var haldið hjá okkur á Ísafirði.  

Sjálfboðaliðar, foreldrar og félagar okkar í Skíðafélaginu sem sæmd voru heiðursmerki Skíðasambandsins voru þau Birna Jónasdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Þórunn Pálsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Jóna Lind Kristjánsdóttir, Sigurður Erlingsson, Guðmundur Ragnarsson, Davíð Höskuldsson og Guðjón Höskuldsson er hlutu silfurmerki. Þorlákur Baxter hlaut gullmerki og Hafsteinn Sigurðsson hlaut heiðurskross Skíðasambandsins. 

Okkur langar að þakka þeim fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. 

 

Greinagerð Hafsteinn Sigurðsson heiðurskross Skíðasambands Íslands:

Hafsteinn Sigurðsson var aðeins átta ára gamall þegar hann fór á skíðanámskeið uppi í Stórurð hér rétt ofan við bæinn og það má segja að hann hafi varla spennt af sér skíðin síðan. Hann varði flestum sínum frístundum í Stórurðinni, þar sem hægt var að skíða langt fram á kvöld.  Að vísu var þá engin lyfta í brekkunni, en ungum og hraustum krökkum þótti lítið mál að labba aftur upp eftir hverja ferð. Brekkan var upplýst og síðasti maður heim slökkti ljósin. Fljótlega varð Seljalandsdalur einnig að leiksvæði Hafsteins.

Níu ára gamall tók Hafsteinn þátt í sinni  fyrstu skíðakeppni og flestum var ljóst að þessi piltur ætlaði sér að ná langt. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í fyrsta sinn fimmtán ára gamall og sautján ára var hann valinn í landslið Íslands í alpagreinum.

Hafsteinn þótti líklegur til að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Sapporo í Japan árið 1972, en því miður hætti Ísland við þátttöku á þeim leikum vegna of mikils ferðakostnaðar. Hann var hins vegar valinn til keppni á heimsmeistaramótinu í St. Moritz í Sviss tveimur árum síðar.

Ég nefndi áðan að Seljalandsdalur hefði verið leiksvæði Hafsteins. En hann gerði meira en að renna sér á skíðum þar upp frá, því samhliða keppnisferlinum var hann  í hópi harðsnúinna  sjálfboðaliða sem lögðu á sig gríðarlega vinnu við að reisa skíðalyfturnar á Dalnum - Gullhólslyftuna og þá landsfrægu „efri lyftu“ sem bar menn upp í eina bröttustu skíðabrekku landsins.

Á árunum 1968 – 1974 varð Hafsteinn tvisvar sinnum Íslandsmeistari í svigi, einu sinni í stórsvigi og tvisvar í alpatvíkeppni. Hann gat því sannarlega verið stoltur af uppskerunni þegar glæsilegum keppnisferli lauk.

Þótt Hafsteinn hætti að keppa var ástríðan fyrir skíðaíþróttinni jafn rík og fyrr. Hann tók til við að miðla af reynslu sinni og kunnáttu til yngri kynslóða og þjálfaði  skíðafólk bæði á Ísafirði og Húsavík. Ekki leið á löngu þar til hann var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands og var m.a. þjálfari hópsins sem Ísland sendi til keppni í alpagreinum á Ólympíuleikunum í Sarajevo árið 1984. Á þeim fjórum árum sem Hafsteinn gegndi stöðu landsliðsþjálfara í alpagreinum varð mikil umbylting í starfsháttum landsliðsins og gæðastuðullinn var hækkaður verulega.

Eftir að Hafsteinn hætti sem landsliðsþjálfari varð hann íþróttafulltrúi á Ísafirði um hríð og beitti sér þá m.a. fyrir verulegum úrbótum á aðstöðunni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal. Hann átti einnig eftir að koma meira að þjálfun skíðafólks á Ísafirði, m.a. á sérstakri skíðabraut við Menntaskólann á Ísafirði sem starfrækt var um skeið.

Hafsteinn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skíðahreyfinguna hér á staðnum. Hann var t.d. formaður Skíðaráðs Ísafjarðar um árabil og var einnig kosinn í nefnd um enduruppbyggingu skíðasvæðisins eftir að aðstaðan á Seljalandsdal hafði sópast burt í snjóflóði.

Hafsteinn Sigurðsson hefur alltaf verið mjög alhliða skíðamaður og þótt alpagreinar væru hans aðal keppnisgrein var hann einnig þónokkuð virkur í skíðagöngu. Á Skíðamóti Íslands árið 1965 keppti hann t.d. bæði í alpagreinum og göngu, en hætti sér þó ekki í stökkið!  Og enn þann dag í dag er Hafsteinn tíður gestur á báðum skíðasvæðum Ísfirðinga, göngusvæðinu og alpasvæðinu, og dylst engum sem sér til að þar fer maður sem kann flestum öðrum betur að standa á skíðum.

Það er mér sönn ánægja að veita Hafsteini heiðurskross Skíðasambands Íslands.

 

Greinagerð silfurmerki Skíðasambands Íslands: 

Með þessari viðurkenningu viljum við þakka ykkur öllum innilega fyrir ómetanlegt framlag ykkar til skíðahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðastarf ykkar hefur verið lykilþáttur í að gera starfsemi skíðahreyfingarinnar hér á Ísafirði mögulegt og hefur haft haft mikil áhrif á alla sem starfa innan hreyfingarinnar, sem og þá sem njóta hennar.

Með ykkar framlagi hafið þið sýnt einstaka elju, ósérhlífni og alúð við öll ykkar störf. Hvort sem það er í skipulagi og stjórnarsetu í SFÍ, aðstoð við iðkendur, á vettvangi móta og æfinga,við rekstur foreldrafélags og skíðaskála þá hefur ykkar framlag verið ómetanlegt. Þið eigið það öll sameiginlegt að orka ykkar og jákvæðni hafa verið smitandi, og þið hafið staðið ykkur sem mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur.

Fyrir hönd skíðahreyfingarinnar þökkum við ykkur af heilum hug fyrir ykkar tíma, vinnu og stuðning. Án fólks eins og ykkur væri starfsemin okkar ekki möguleg. Við vonum að þið haldið áfram að vera hluti af þessu ótrúlega samfélagi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Nánar

Styrktaraðilar