Íþróttamaður ársins 2024 og efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar
Dagur Benediktsson var útnefndur Íþróttamaður Ísafjarbæjar og Eyþór Freyr Árnason efnilegasti íþróttamaður ársins 2024 á hófi sem haldið var á veitingastaðnum Logni. Þar voru jafnframt veittar viðurkenningar til iðkenda sem tekið hafa þátt í verkefnum á vegum landsliða og sérsambanda. Þeir iðkendur hjá SFÍ sem hlutu viðurkenningu fyrir að taka þátt í verkefnum á vegum landsliða og sérsambanda voru:
Alpagreinar:
Bríet Emma Freysdóttir, Katrín Fjóla Alexíusdóttir og Matthías Breki Birgisson tóku þátt í hæfileikamótun SKÍ.
Skíðaganga:
Dagur Benediktsson landsliðsæfingar og keppni með A landsliði Íslands í skíðagöngu.
Grétar Smári Samúelsson og Ástmar Helgi Kristinsson HM unglinga í Planica ásamt æfinga með landsliði.
Eyþór Freyr Árnason, Heimir Logi Samúelsson, María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir og Þórey Þórsdóttir tóku þátt í hæfileikamótun SKÍ
Bríet Emma var jafnframt tilnefnd sem efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.
Um Bríeti:
Bríet hefur sýnt það og sannað að hún vill ná langt í skíðaíþróttinni. Hún mætir á allar æfingar, allan ársins hring og leggur sig alla fram. Hún hefur einnig tekið þátt í hæfileikamótun sem Skíðasamband Ísland hefur haldið síðustu ár. Þar fer hún með þeim í æfingaferðir á skíði til útlanda ásamt því að mæta í „þrekhelgar“ sem þau halda á haustin hérna á Íslandi. Bríet er einstaklega dugleg og samviskusöm, þar sem hún mætir alltaf á æfingar með jákvæðni og einbeitingu sem skilar sér í frábærum framförum. Hún er líka ótrúlega drífandi og hefur einstakt keppnisskap, sem gerir hana að fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í fjallinu. Hún uppskar erfiði sitt í lok síðasta vetrar þegar hún varð í 3. sæti í erfiðum stúlknaflokki á stærsta skíðamóti Íslands, Andrésar Andarleikunum. Það verður spennandi að fylgjast með henni stíga sín fyrstu skref í fullorðinsflokki á næsta ári.
Um Dag:
Dagur Benediktsson er fremsti skíðagöngumaður landsins. Hann er í A-landsliði Íslands í skíðagöngu og keppir fyrir Íslands hönd á mörgum helstu stórmótum heimsins. Dagur ólst upp í Skíðafélagi Ísfirðinga en æfir nú og keppir um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann er mikill keppnismaður, samviskusamur og skipulagður íþróttamaður sem leggur gríðarlega vinnu í að ná árangri. Dagur ver yfir 700 klukkustundum á ári í æfingar, sem jafngildir um tveimur klukkustundum á dag, alla daga ársins. Þrátt fyrir aga og vinnusemi finnur hann alltaf leið til að gera æfingarnar skemmtilegar, sem æfingafélagar hans kunna vel að meta.
Dagur er mikilvæg fyrirmynd fyrir yngri iðkendur Skíðafélags Ísfirðinga og gefur mikið af sér þegar hann er heima á Ísafirði.
Á síðasta keppnistímabili náði Dagur sínum besta árangri á sterku móti í Idre í Svíþjóð, þar sem hann fékk bestu FIS punkta ferilsins og endaði í 26. sæti í 20 km göngu með frjálsri aðferð. Hann var fyrsti Íslendingurinn í mark í Fossavatnsgöngunni og hápunktur ársins var þegar hann varð fimmfaldur Íslandsmeistari á Seljalandsdal síðasta vetur.
Um Eyþór:
Eyþór Freyr Árnason er mikill íþróttamaður sem leggur mikinn metnað í það sem hann er að gera. Hann hefur æfit af kappi skíðagöngu og fótbolta með góðum árangri. Með mikilli vinnusemi og skýrum markmiðum hefur Eyþór vaxið með hverjum vetrinum sem skilaði honum mjög góðum árangri síðastliðinn keppnis vetur. Hann var bikarmeistari SKÍ í 15-16 ára flokki sem er samanlagður árangur úr bikarmótum vetrarins 2023. Hann var yfirleitt í 2 sæti í sprettgöngunum en vann allar lengri göngur sem hann tók þátt í. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 15-16 ára flokki bæði í hefðbundini og frjálsri aðferð. Eyþór er sterk fyrirmynd sem sýnir gott fordæmi og verður virkilega spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.
Það er óhætt að segja að það sé mikið líf hjá SFÍ og gaman að sjá þessa duglegu iðkendur vera uppskera svona vel.