Fréttir

SMÍ2013: Keppni lokið í göngu með frjálsri aðferð

5. apríl 2013 Albertína Friðbjörg Elíasdóttir

Keppni í göngu með frjálsri aðferð á Skíðamóti Íslands 2013 er nú lokið. Aðstæður í braut þóttu góðar og var rennslið sérstaklega gott enda hafði fryst í nótt og harðnað í sporunum. Keppni var æsispennandi  í öllum flokkum og oft aðeins örfáar sekúndur sem skildu á milli fyrstu keppenda. Í dag var keppt í göngu með frjálsri aðferð; 10 km í flokki pilta 17-19 ára, 7.5 km í flokki kvenna 17 ára og eldri og 15 km í flokki karla 20 ára og eldri.

 

Keppni á gönguskíðum verður framhaldið á morgun laugardag kl. 10 með keppni í göngu með hefðbundinni aðferð og mun flokkur pilta 17-19 ára ganga 10 km, flokkur kvenna 17 ára og eldri 5 km, og að lokum flokkur karla 20 ára og eldri sem munu ganga 10 km. Búast má við æsispennandi keppni við frábærar aðstæður og eru Ísfirðingar og nærsveitarmenn eindregið hvattir til að mæta upp á dal og hvetja keppendur til dáða.

 

Úrslit í göngu með frjálsri aðferð föstudaginn 5. apríl 2013

 

Piltar 17-19 ára, 10 km með frjálsri aðferð

1. Ragnar G. Sigurgeirsson, Skíðafélag Akureyrar – 00:31:35
2. Hákon Jónsson, Skíðafélag Ísafjarðar – 00:32:15
3. Sindri Freyr Kristinsson, Skíðafélag Akureyrar – 00:35:27

 

Konur 17 ára og eldri, 7.5 km með frjálsri aðferð

1. Stella Hjaltadóttir, Skíðafélag Ísafjarðar – 00:25:49
2. Jónína Kristjánsdóttir, Skíðafélag Ólafsfjarðar – 00:26:16
3. Guðbjörg Rós Sigurðardóttir, Skíðafélag Ísafjarðar – 00:26:51

 

Karlar 20 ára og eldri, 15 km með frjálsri aðferð

1. Brynjar Leó Kristinsson, Skíðafélag Akureyrar – 00:43:18
2. Sævar Birgisson, Skíðafélagi Ólafsfjarðar – 00:44:52
3. Gísli Einar Árnason, Skíðafélag Akureyrar – 00:46:13

Nánar

Keppni lokið í svigi á SMÍ 2013

5. apríl 2013 Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Mynd: Benedikt Hermannsson
Mynd: Benedikt Hermannsson
1 af 3

Keppni í svigi á Skíðamóti Íslands 2013 er nú lokið. Aðstæður í fjallinu voru góðar og gekk keppni vel og reyndist æsispennandi, enda oft lítill munur á milli keppenda.

 

Keppni í alpagreinum verður framhaldið á morgun laugardag kl. 10 með keppni í stórsvigi, seinni umferð verður startað klukkan 13. Þær góðu fréttir voru að berast að hægt verður að keyra stórsvigsbraut eins og þær gerast bestar, en startað verður frá toppi Sandfells, niður háubrúnina og verður markið einfaldlega niðri við skíðaskála þannig að það er alveg ljóst hvert fólk á að fara á ísrúntinum í fyrramálið – mæta og hvetja keppendur þegar þeir renna í markið.

Úrslit í svigi föstudaginn 5. apríl 2013

 

Svig kvenna

1. Helga María Vilhjálmsdóttir, Skíðaráð Reykjavíkur – 1:44.79

2. María Guðmundsdóttir, Skíðafélag Akureyrar – 1:44.92

3. Erla Ásgeirsdóttir, Breiðablik – 1:47.44

 

Svig karla

 1. Einar Kristinn Kristgeirsson – Skíðafélag Akureyrar -1:32.76

 2. Brynjar Jökull Guðmundsson – Skíðaráð Reykjavíkur – 1:35.20

 3. Jakob Helgi Bjarnason – Skíðafélag Dalvíkur – 1:35.83

 

Nánar

Fyrsti keppnisdagurinn í dag

5. apríl 2013 Albertína Friðbjörg Elíasdóttir

Í dag er fyrstu alvöru keppnisdagur Skíðamóts Íslands 2013. Keppni í alpagreinum hefst með fyrri ferð kvenna og karla í stórsvigi nú klukkan 10, en seinni ferð mun fara fram klukkan 13. Keppni í skíðagöngu hefst svo klukkan 13 með 10 km göngu pilta 17-19 ára með frjálsri aðferð. Klukkan 13.40 hefst ganga 5 km kvenna 17 ára og eldri með frjálsri aðferð og keppni dagsins líkur svo með 15 km göngu karla 20 ára og eldri með frjálsri aðferð. 

 

Fylgjast má með tímatöku bæði í alpagreinum og skíðagöngu á netinu.

Nánar

Skíðamót Íslands 2013 sett

4. apríl 2013 Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
1 af 4

Skíðamót Íslands 2013 var formlega sett við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju fyrr í kvöld. Þar voru saman komnir keppendur, aðstandendur keppenda og mótsins og aðrir velunnarar. Við setninguna töluðu Jóhanna Oddsdóttir formaður Skíðafélags Ísafjarðar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir varaforseti Bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Árni Rúdólf Rúdólfsson varaformaður stjórnar Skíðasambands Íslands setti mótið. Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ólympíufari stjórnaði dagskránni en einnig var boðið upp á tónlistaratriði, en Ísfirðingurinn Sunna Karen Einarsdóttir söng og spilaði á píanó. 

 

Í dag var einni keppt í sprettgöngu sem haldin var upp á Seljalandsdal nú seinni partinn í dag. Rennsli þótti sérstaklega gott og reyndist keppnin æsispennandi og munaði oft aðeins örfáum sekúndum á milli keppenda.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar við setningu mótsins fyrr í kvöld af Benedikt Hermannssyni.

Nánar

Lifandi tímataka í skíðagöngu

4. apríl 2013 Albertína Friðbjörg Elíasdóttir

Á morgun föstudag verður keppt í skíðagöngu karla og kvenna með frjálsri aðferð. Hægt verður að fylgjast með keppni í skíðagöngu á netinu alla dagana með því að fara inn á heimasíðu lifandi tímatöku skíðagöngunnar með því að smella hér.

Nánar

Styrktaraðilar